Fyrsta sandspyrnukeppni Bílaklúbbs Akureyrar fór fram við Dalvík 27. ágúst 1978. Hátt í 2000 manns mættu á keppnina.
Sumarið áður, 1977, hafði klúbburinn prófað spyrnukeppni að Melgerðismelum ( Sjá má myndir frá þeirri spyrnu hérna ). Áhugi hafði verið mikill og fannst Bílaklúbbsmönnum kominn tími til að gera þetta almennilega.
Hér höfum við smá frásögn frá Ragnari S. Ragnarssyni:
„Já þetta var alveg magnað. Við vorum alla nóttina fyrir keppnina að undirbúa brautina. Fengum dælu lánaða frá Slökkviliðinu á Dalvík (sem bræddi úr sér) og djöfluðumst með vegþjöppu í startinu, á vöktum, allt fram að keppninni. Engu að síður var brautin helvíti gljúp eins og sjá má. Áhorfendur skiptu þúsundum og skemmtu sér vel enda í fyrsta skipti sem lögleg spyrnukeppni var háð norðan heiða.
Nokkrum vikum fyrir keppnina höfðum við sem þá vorum í stjórn B.A. fundið þetta svæði og samið við landeigendur um afnot af því. Við renndum í hlað á bæ landeigandans sem tók okkur vel og hvað sjálfsagt að við fengjum að fara þarna í kappakstur en eitt yrðum við þó að gera; að láta allan rekavið í friði. Það var lán að hlaðið á bænum vísaði inn Svarfaðardal en ekki til sjávar; vegna þess að þá hefði þessi ágæti bóndi séð mikinn reykjarmökk liðast upp af vænum rekaviðarkesti sem við höfðum, af tómri hvatvísi ungra manna, hreinsað úr fyrirhuguðu brautarstæði og kveikt í áður en við báðum um leyfi. !“
Smellið á myndirnar fyrir nánari texta.