Lög og reglur BA

    Lög Bílaklúbbs Akureyrar

1. gr. Félagið heitir Bílaklúbbur Akureyrar, skammstafað B.A. og er heimili þess og varnarþing á Akureyri. Kennitala B.A. er 660280-0149.

2. gr. Sá sem óskar eftir inngöngu í félagið fyllir út inntökubeiðni. Umsækjendur yngri en 18 ára skulu framvísa skriflegu samþykki foreldra ( forráðamanns). Umsóknin er síðan afgreidd af stjórn.

3. gr. Tilgangur félagsins er:

  1. Rekstur félagsheimilis, keppnissvæðis og útleiga landsvæðis, svo sem ökugerðis og þátttöku í rekstri þess.
  2. Keppnishald í akstursíþróttum samkvæmt árlegu keppnisalmanaki.
  3. Að standa fyrir  Bíladögum og bílasýningu 17. Júni ár hvert.
  4. Stuðla að varðveislu gamalla bíla ásamt sögum og heimildum.
  5. Uppbygging akstursvæðis til keppnishalds og bættrar umferðarmenningar.

4. gr. Deildir/nefndir

     a.  Í félaginu geta starfað eftirtaldar deildir/nefndir
Jeppadeild.
Spyrnudeild.
Fornbíladeild. ( fornbíla- og sýningardeild
X-Race deild
(fyrir drift, rally, auto-x, rally-cross og burn out keppnir)

RC-deild

Ungliðadeild
Landsvæðanefnd.
Laga- og aganefnd.

b. Hver deild/nefnd skipuleggur starf sitt og starfar undir stjórn deildar/nefndar  formanns.

5. gr. Stjórn/nefndir

  1. Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum auk tveggja varamanna.
  2. Stjórnin skiptist í formann,varaformann, gjaldkera, fjölmiðlafulltrúa, ritara og 2 meðstjórnendur.
  3. Stjórn er heimilt að skipta með sér verkum.
  4. Kosið skal í stjórn sérstaklega um hverja stöðu  fyrir sig.
  5. Formann skal kjósa til þriggja ára í senn.
  6. Varaformann skal kjósa til þriggja ára í senn en aldrei á sama ári og formann.
  7. Gjaldkera skal kjósa til tveggja ára í senn. Og alltaf á oddatöluári.
  8. Ritara skal kjósa til tveggja ára í senn. Og alltaf á slétttöluári.
  9. Fjölmiðlafulltrúa skal kjósa til tveggja ára í senn. Og alltaf á slétttöluári.
  10. Meðstjórnendur skal kjósa til tveggja ára í senn. Og skulu alltaf vera kosnir á sitthvoru árinu.
  11. Varamenn í stjórn skal kjósa til tveggja ára í senn. Og skulu alltaf vera kosnir á sitthvoru árinu.
  12.  Formaður þarf að ná þriðjungi greiddra atkvæða, ef ekki skal kosið aftur um þá tvo sem efstir voru að atkvæðum. Ávallt skal kjósa skriflega í stjórn, þó menn gefi kost á sér til endurkjörs. Formaður skal sjálfkjörinn fulltrúi á ársþing  Akstursíþróttasambands Íslands,AKÍS/MSI, en formanni er heimilt að senda mann í sinn stað ef svo stendur á.  Varamenn skulu boðaðir á stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Komi til atkvæðagreiðslu í fjarveru aðalmanna, taka varamenn sæti í aðalstjórn í samræmi við atkvæðafjölda. Til að geta gefið kost á sér í stjórn þarf viðkomandii að vera búin að greiða í félagið a.m.k. sl. 3 ár einning að hafa tekið þátt í keppnishaldi, mætt á félagsfundi eða tekið þátt í starfi klúbbins á einhvernhátt.
  13. Kosnir skulu tveir skoðunarmenn til eins árs í senn sem endurskoða bókhald félagsins og skila undirrituðu fyrir aðalfund. Skoðunarmenn skulu að minnsta kosti hafa verið virkir félagsmenn þrjú ár í félaginu.
  14.  Löggiltur endurskoðandi skal annast gerð ársreikninga/ársuppgjör BA.
  15. Landsvæðanefnd skal vera starfandi í félaginu skv 3.gr deilda og nefndareglna skipuð a,m,k 3 félagsmönnum. Formann Landsvæðanefndar skal kjósa á aðalfundi til tveggja ára í senn.
  16. Laga og aganefnd skal vera starfandi í félaginu skv 3.gr deilda og nefndareglna skipuð a,m,k 3 félagsmönnum. Formann Laga og aganefndar skal kjósa á aðalfundi til 1 árs í senn.

Síðast breytt á Aðalfundi félagsins dags. 05-02-2022

6. gr. Starfssvið stjórnar

a. Aðalfundur er æðsta vald félagsins. En á milli aðalfunda er stjórn æðsta valdið.

Stjórn félagsins fer með sameiginleg mál deilda og hefur öll fjármál og framkvæmdavald í félaginu. Hún er ábyrg gerða sinna gagnvart félaginu og sker úr um öll ágreiningsmál sem upp kunna að koma er varða hagsmuni félagsins.

b. Stjórnarformaður er forsvarsmaður B.A og sér um opinber samskipti B.A

Formaður stýrir stjórnarfundum sem skulu haldnir mánaðarlega auk félagsfunda eins og þurfa þykir. Stjórnarfundi skal fresta ef mæting er ekki næg, þrjá stjórnarmenn þarf til að fundur sé löglegur.

c. Varaformaður er staðgengill formanns, og tengiliður deildar/nefndarformanna við stjórn.

d. Gjaldkeri sér um fjármál og bókhald. Gjaldkeri sér um innheimtu árgjalda. Gjaldkeri innheimtir einnig aðrar tekjur félagsins. Hann gerir glögga grein fyrir gjöldum og tekjum félagsins og ávaxtar sjóði þess í áreiðanlegum bankastofnunum.

e.  Fjölmiðlafulltrúi sér um samskipti við fjölmiðla. Hann skal skrifa og koma á framfæri málum félagsins svo og greinum um keppnir, sýningar og félagsstarf ásamt að vera ábyrgur fyrir heimasíðu B.A. www.ba.is. og spjallsíðu B.A .

f. Ritari heldur fundargerð á stjórnarfundum. Hann skal í upphafi fundar lesa fundargerð síðasta fundar. Hann sér um bréfaskriftir fyrir félagið eins og stjórn óskar.

g. Stjórnin skal halda utan um félagaskrá eftir hvern aðalfund og skal þar getið hverjir kjörnir hafa verið í hin ýmsu störf fyrir félagið það ár.

7. grein. Aðalfundir og aðrir fundir:

Aðalfundur félagsins skal haldinn í janúar ár hvert og boðað til hans með þriggja vikna fyrirvara með tilkynningum meðal annars á www.ba.is.

Reikningsár félagsins er almanaksárið, og er farið yfir árskýrsluna í mars ár hvert.

Lagabreytingum, tillögum um breytingar á reglum félagsins og framboði til stjórnarsetu og öðrum tillögum skal skilað til stjórnar skriflega minnst viku fyrir aðalfund.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Formaður setur fundinn og boðar kosningu fundarstjóra og ritara fundarins.

2. Fundarstjóri kannar lögmæti fundarins og kynnir dagskrá  hans.

3. Formaður flytur skýrslu stjórnar.

4. Deildarformenn flytja skýrslu sinnar deildar.

5. Gjaldkeri útskýrir reikninga félagsins.

6. Umræða um skýrslu stjórnar/deilda, reikninga félagsins og afgreiðsla.

7. Lagabreytingar ef lagðar eru fram. Afgreiddar  með skriflegri kosningu.
Lög taka strax gildi hafi 2/3 hluti mættra fundarmanna samþykkt.

8. Kosning stjórnar sbr. gr. 5. Skrifleg kosning.

9. Kosning skoðunarmanna reikninga sbr. gr. 5. Kosning, handaupprétting.

10. Kosning Formanns Landsvæðanefndar.  Handaupprétting.

11. Kosning formanns Laga og aganefndar. Handaupprétting.

12. Ákvörðun um gjald félagsskírteina B,A

13. Önnur mál.

Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað og mæting kjörgengra félagsmanna sé að lágmarki 15 manns auk allra 6 stjórnarmanna.
Félagsfund skal halda ef a.m.k. tuttugu félagsmenn óska og þarf þá stjórninni að hafa borist skriflegt erindi þar um með minnst 10 daga fyrirvara.

8. gr. Réttindi og skyldur félagsmanna

a.  Félagar hafa málfrelsi, tillögu- og atkvæðarétt á fundum félagsins svo og kjörgengi.

b.  Þeir sem ekki hafa greitt árgjald sitt fyrir aðalfund ár hvert missa atkvæðisrétt og hafa þar með fyrirgert rétti sínum til kjörgengis í Bílaklúbb Akureyrar. Árgjöld skulu að fullu greidd innan tveggja mánaða frá aðalfundi.
(  Til útskýringar; árgjald 2012 gildir fram yfir aðalfund 2013 og svo fr  )

c.  Félagar njóta afsláttarkjara og fyrirgreiðslu sem félagið býður upp á.

d.  Félagar skulu fylgja lögum félagsins.

e. Frítt er í félagið fyrir maka og börn félagsmanna sem hafa verið félagsmenn í meir en eitt ár.
Til skýringar: ( Félagsmaður getur óskað eftir makakorti þegar greiðsla hefur borist á öðru ári og einnig þurfa eldri félagssmenn að óska eftir útgáfu makakorta ár hvert, það er ekki gefið út nema að beiðni félagsmanns ár hvert. Makakort eru ekki gefin út eftir 15 Maí ár hvert )

Handhafar félagsskírteina ásamt börnum félagsmanna yngri en 16 ára fá frítt inn á viðburði B.A, það er að segja keppnir og sýningar.

9. gr. Lögum félagsins má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi og nær breytingin aðeins fram að ganga að 2/3 hlutar fundarmanna samþykki hana.
Atkvæðagreiðslur um önnur mál félagsins, þá ræður meirihluti atkvæða.
Reglum deilda/nefnda félagsins er hægt að breyta á löglegum félagsfundi og gildir þá meirihluti atkvæða.

10. gr. Fari svo að félagið leysist upp skulu eignir þess varðveittar í allt að fimm ár í áreiðanlegri peningastofnun í von um að svipaður félagsskapur rísi upp aftur á Akureyri. Annars skal sú stjórn sem verður við völd er félagsskapurinn leysist upp ákveða í sameiningu við Akureyrarbæ hvað gert verður við eignir félagsins að þessum fimm árum liðnum.

11. gr. Tillögur skulu bornar fram á félagsfundum. Ef einhver ágreiningur kemur upp innan félagsins skal hann borinn undir Laga og aganefnd og lagfærður tafarlaust sé það mögulegt. Skylt er að halda góðan félagsanda innan félagsins og ber félagsmönnum ávallt að vinna af heilindum að velferð félagsins.

12. gr. Gerist félagsmaður brotlegur við lög eða starfsreglur félagins getur hann fyrirgert rétti sínum til félagsins um tíma eða að fullu að mati félagsfundar.

13. gr. Stjórnin getur tilnefnt heiðursfélaga fyrir aðalfund þegar við á, þó aldrei fleiri en einn í senn fyrir hverja deild. Félagsmenn geta komið með tillögur til stjórnar um heiðursfélaga viku fyrir aðalfund.

14. gr. Starfsár skal vera frá aðalfundi til aðalfundar. Reikningsár skal vera almanaksárið.

15. gr. Reglur um farandbikara Bílaklúbbs Akureyrar.

  1. Enginn getur unnið farandbikar til eignar.
  2. Á farandbikar skal grafa nafn sigurvegara og ártal.
  3. Farandbikarar skulu varðveittir í félagsheimili B.A. milli keppna.
  4. Fari svo að tveir eða fleiri verði jafnir að stigum eða tíma, þá skal úrskurða samkvæmt lögum FÍA um hver sé sigurvegari.

                  Síðast breytt á Aðalfundi félagsins dags. 05.02.2022

 

 

                  Deildar og nefndarreglur Bílaklúbbs Akureyrar

1.gr.  Sex deildir og  tvær nefndir  geta starfað innan BA
Jeppadeild.
Spyrnudeild.
X-Racedeild (fyrir drift, rally, auto-x, rally-cross og burn out).
Fornbíladeild (fornbíla- og sýningardeild).

RC-deild.
Ungliðadeild.
Landsvæðanefnd.
Laga- og aganefnd.

2.gr. Félagsmenn deilda og almennar starfsreglur.
Allar deildir/nefndir skulu skipaðar deildar/nefndarmönnum sem kjósa sér formann ár hvert á Aðalfundi.
Lágmarksfjöldi deildar/nefndarmanna eru þrír en enginn hámarksfjöldi.
Lágmarksfjölda þarf  í hverja deild/nefnd svo hún teljist virk.
Formaður sér um yfirstjórn deildar/nefndar sinnar og skipuleggur viðburði hennar og er skylt að vera í reglulegu sambandi við varaformann stjórnar. ( Tengilið deilda við stjórn )
Formenn deilda/nefnda hafa vald til að skrá menn í deild sína hvenær sem er en hafa skyldu til að skrá það strax á deildar/nefndarlista.
Deildar/nefndarmenn hafa skyldur til að vera virkir í viðburðum deildar/nefndar sinnar.
Deildar/nefndarmenn mega vera í fleiri en einni deild/nefnd, þó ekki formenn nema einni.
Deildarfundir skulu haldnir a.m.k. mánaðarlega.
Nefndarfundir eftir þörfum hverju sinni.
Öll útgjöld og innkoma deilda/nefnda fer í gegnum stjórn B.A og gjaldkera B.A
Formanni deildar/nefndar  er heimilt að sitja stjórnarfund ef verið er að fjalla um mál deildar/nefndar hans. Formenn deilda/nefnda hafa tillögurétt en ekki atkvæðarétt á stjórnarfundum.
Hver deild/nefnd ( formaður ) fær aðgang að heimasíðu B.A til að setja inn auglýsingar og skrif um viðburði og fréttir varðandi deildina.
Allar deildir/nefndir skulu ganga um svæði B.A og félagsheimili af virðingu og ganga frá og laga til eftir hvern viðburð hver fyrir sig.
Allar deildir, nefndir og stjórn B.A skulu vinna markvisst að löglegum, ábyrgum og vímulausum akstri við allar aðstæður.

3.gr. Deildarskipting og starfsreglur.

Jeppadeild.
Deildin heldur Torfærukeppnir samkvæmt árlegu keppnisdagatali; skipuleggur ýmiskonar uppákomur svo sem sjáum heim vetrarferðir, jeppaleikni og aðstoðar við öflun sýningatækja á bílasýningu.

Spyrnudeild.
Deildin sér um allar spyrnukeppnir samkvæmt árlegu keppnisdagatali.
Skipuleggur opin æfingarkvöld og aðstoðar við öflun sýningatækja á bílasýningu.

X-Racedeild.
Deildin sér um allar Rally, Rallycross, auto x, burnout  og drift keppnir samkvæmt dagatali og stendur einnig fyrir opnum æfingarkvöldum og aðstoðar við öflun sýningatækja á bílasýningu.


Fornbíladeild/Sýningardeild

Deildin sér um stjórnun og  framkvæmd  bílasýningarinnar 17 júní ár hvert.  Deildin skal vera virk í að kynna fornbíla- og bílamenningu fyrir almenningi og hafa umsjón með uppgerð
og varðveislu fornbíls í eigu BA.

RC-deildin

Deildin stendur fyrir æfingum og keppnum á fjarstýrðum bílum og aðstoðar við öflun sýningartækja á bílasýningu.

Ungliðadeild.
Deildin stendur fyrir unglingastarfi innan félagins og kemur á framfæri hugmyndum um námskeið og fræðslu varðandi, bíla, keppnir og keppnishald fyrir ungt og óreynt fólk.

Landsvæðanefnd.
Landsvæðanefnd hefur yfirumsjón með  landssvæði BA ásamt félagsheimili og öðrum eignum BA.Nefndin hefur umsjón með og ber ábyrgð á því hverjum er veittur aðgangur að eignum félagsins. Nefndin ber ábyrgð á að eignir félagsins séu vel hirtar og ávalt til fyrirmyndar.
Nefndin skipuleggur og úthlutar tímum og lyklum að landsvæði og í félagsheimili til deilda og annarra sem hafa verkefni á vegum BA með höndum.

Laga- og aganefnd.
Nefndin er stjórn og deildum innan handa með lagalegar upplýsingar og ráðgjöf og getur tekið þátt í að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma innan félagsins.
Nefndin hefur aðgang að öllum gögnum félagsins sem hún telur nauðsynlegt við úrlausn mála sem hún hefur fengið umboð til að vinna.

      Deildar- og nefndareglur samþykktar á aðalfundi Bílaklúbbs Akureyrar

                                      Dags  18 – 02  Ár 2017