Saga BA

Bílaklúbbur Akureyrar
Nokkur minnisverð atriði frá stofnun og fram til 1980
Smellið á tengla hérna til hliðar í valmyndinni fyrir nánara efni.
Stofnun
Það er alveg á hreinu að Steindór Geir Steindórsson, öðru nafni Dini, er höfusmiður Bílaklúbbs Akureyrar; klúbburinn var stofnaður á heimili hans og sem fyrsti formaður klúbbsins fékk hann það ögrandi verkefni að halda saman hópi ólíkra ungmenna sem átti þótt eitt sameiginlegt; brennandi áhuga á bílum.
Bílaklúbbur Akureyrar var stofnaður í Strandgötu 51 þann 27. maí 1974. Þetta var mánudagur og í miðju kuldakasti á norðlensku vori. Strandgata 51 var heimili Dina; íbúðarhús sem er áfast Vélsmiðju Steindórs sem var og er fjölskyldufyrirtæki. Og fyrir þau ykkar sem ekki dugar að klúbburinn hafi verið stofnaður í Strandgötu 51 þá getum við gefið enn nánari staðsetningu; það var í forstofuherberginu á neðri hæð hússins; sem snýr að Kaldbaksgötunni. Áður hafði Steindór komið á fót reiðhjólaklúbbi og skellinöðruklúbbi sem döguðu báðir uppi um leið og félagsmenn eignuðust ökuskírteini, sem í þá daga voru miklu mikilvægari en mörg prófskírteini í augum ungs fólks. Lógó

Merki Bílaklúbbsins var búið til af Sigurjóni M. Sigurjónssyni á upphafsárum Bílaklúbbsins.  Merkið var valið á félagsfundi í Dynheimum í kosningum.  Merkið hefur svo sannarlega staðist tímans tönn.
Aðdragandi stofnunarinnar var nokkuð langur. Dini hafði hleypt heimdraganum og starfað í Reykjavík 1971- 72 og kynntist þar því sem hann kallar „villimennsku í kringum bíladelluna.“ Hann á við óheftan kappakstur sem tíðkaðist þá víða um borgina og hófst jafnvel á götum utan við skemmtistaði borgarinnar. Þannig hófst einn frægasti götukappakstur íslandssögunnar fyrir utan Þórskaffi það sem annað aðalhlutverkið lék norðlenskt heljarmenni á Shelby Cobru árgerð 1967.
Ungmennin sem stóðu í þessu fengu þarna útrás voru sundurlaus hópur og kappakstrar eða spyrnur voru þá sjaldan fyrir fram skipulagðir atburðir, heldur kviknuðu oftast og skyndilega þegar kaggi elti upp annað tryllitæki. Dina fannst þetta ekki gott ástand og telur að ef ekkert hefði verið að gert hefði það endað með stórslysum. Og þegar Dini flutti norður eftir dvölina í höfuðborginni sá hann að ástandið var svo sem ekkert öðruvísi í höfuðstað Norðurlands; „Þar var bara bardagi á götunum og það varð að virkja unga fólkið og sameina til aðgerða sem miðuðu að því að draga úr hættunni sem stafaði af hraðakstri um bæinn.“ Draumurinn var að koma upp aðstöðu þar sem unga fólkið gæti gert við bílana sína og einnig átti að reyna að fá aðgang að Akureyrarflugvelli til hættulausari hraðaksturs. „Það var bæði bílategundarígur í bænum á þessu árum og svo var auðvitað hverfarígur í gangi þar sem fólk var flokkað sem Eyrarpúkar, Brekkusniglar, Innbæingar og Þorparar eftir búsetu.” Hugmynd Dina og þeirra sem stofnuðu Bílaklúbb Akureyrar var að sameina þetta fólk til aðgerða sem miðuðu að því að gera bílasport og bíladellu að verðugu áhugamáli sem skipaði sama sess og önnur áhugamál og íþróttir í hugum fólks, en oft var á þessum árum talað ómerkilega um þá sem hrærðust í heimi bíladellunnar og þeirra áhugamál ekki talin mjög fín.
Klúbburinn fljótt áberandi
1975

Sýningin 1975.  Shelby Mustang Arthúrs Bogasonar í forgrunni.
Það var margt sem hjálpaði til við að koma Bílaklúbbnun á framfæri fyrstu árin og að gera hann sýnilegan á Akureyri. Sú ákvörðun að halda bílasýningu á 17. júní vegur örugglega þyngst þar. Þessari sýningu var frá upphafi tekið ákaflega vel af bæjarbúum og nærsveitarmönnum sem margir töldu og telja sig enn, ekki hafa tekið þátt í hátíðarhöldunum nema hafa sótt sýninguna. Í dag er þessi eins dags sýning orðin að nokkura daga bílaveislu sem er fjárhagslega hagstæð fyrir margt fólk og fyrirtæki í bænum sem selja þátttakendum og áhorfendum margskonar þjónustu. Á upphafsárunum var þess alltaf gætt að það væri hátíðarbragur í kringum sýninguna þar sem sýningarsvæðið við Oddeyrarskólan var umkringt fánaborg. Ráðamenn bæjarins litu á þessa hátíðlegu umgjörð með velþóknun og átti hún örugglega þátt smám saman skapaðist velvild innan bæjarapparatsins gagnvart klúbbnum.
 Dagana fyrir bílasýningarnar höfðu klúbbfélagar í nógu að snúast við að biðja eigendur athyglisverðra farartækja að um að fá að sýna þau. Í sumum tilvikum varð að ganga verulega á eftir eigendunum og svo gat farið að klúbbfélagar tækju að sér að dytta að þeim farartækjum sem þeir vildu fá á sýninguna, eigendunum að kostnaðarlausu. Það má til dæmis upplýsa hér að gyllingin sem sést á teinahjólum hins fræga Dixie Flyer sem var á fyrstu árum B.A. flaggskip gamalla bíla í bænum, var máluð af Gósa Hermundar líkistusmið. Strákarnir í klúbbnum ætluðu upphaflega að fá bara lakkið hjá Gósa en hann tók ekki í mál annað en að vinna líka verkið sjálfur. Í þessari litlu sögu kristallast reyndar sú staðreynd að Bílaklúbburinn ávann sér mjög fljótt góðvild margra sem stóðu utan hans. Stundum var um að ræða fólk sem hafði einhver ítök í bæjarmálapólitíkinni eða voru eigendur fyrirtækja og þessir aðilar áttu til að greiða götu klúbbsins ef eftir var leitað. Margir þessir stuðningsmenn á hliðarlínunni voru kallar með bíladellu, sem töldu sig þá aldurs síns eða virðingar vegna ekki eiga heima í klúbbi með því unga fólki sem þar var, en vildu engu að síður leggja málstaðnum lið. Þannig fengust til dæmis líkbílar, risastórir snjóbílar og slökkvibílar án eftirgangsmuna á sýninguna. Og ekki sakaði að þáverandi skólastjóri Oddeyrarskólans, Indriði Úlfsson, var með mikla bíladellu. Jafnframt var leitast eftir að fá félaga úr klúbbnum í umferðarnefnd bæjarins að sögn Steindórs.
Dixie
DixieFlyer
Dixie Flyer – núna geymdur að Ystafelli.

Dyni

Dini með myndavélina ásamt fallhlífastökkvurum.  Sandspyrna í kringum 1980.
 Annað sem jók umræðu og umtal um Bílaklúbb Akureyrar var að Dini var kvikmyndatökumaður fyrir ríkissjónvarpið á þessum árum. Fyrstu ár ríkissjónvarpsins hafði verið blátt bann við að sýna eitthvað sem kallaðist kappakstur eða af bíladellu þar á bæ. Þetta breyttist smám saman meðal annars vegna fréttamynda sem Dini sendi þeim af bílasýningunni og öðrum atburðum sem klúbburinn stóð fyrir. Hjá sjónvarpinu starfaði í þá daga fólk með bíladellu, eins og Ómar Ragnarsson, Maríanna Friðjónsdóttir og Björn Emilsson, sem höfðu áhrif á að slíkar fréttamyndir væru sýndar.

Landsvæði – hraðakstur af götunum…og aðrar sögur

En aðgangurinn að flugvellinum fékkst ekki svo að kappakstur og spól um bæinn hélt áfram, oft í skjóli nætur. Dini vill þó meina að slík ævintýri hafi orðið mun skipulegri og hættuminni í kjölfar stofnunar klúbbsins. Þá á hann við að þeir sem tóku þátt í slíku gerðu sér betur grein fyrir að þeir gætu skaðað aðra, og saklausa vegfarendur, við slíka iðju. Þessvegna voru teknar upp ákveðnar venjur í kringum ólöglegar spyrnur sem höfðu það markmið að þeir einir sem tækju þátt í þeim ættu á hættu að verða sér tjóni. Þessar spyrnur fóru oftast fram út við bæinn Dvergastein og þá var alltaf séð til þess að einhver vaktaði alla brautina þannig að tryggt væri að engin umferð gæti komið á móti þeim bílum sem voru í spyrnu. Oftast fóru þessar spyrnur fram seint um kvöld þegar umferð var afar lítið. Í munni mótorhausa á þessum árum kölluðust þessar spyrnur „að fara út á enda“ Þessi orðanotkun vísaði til þess að malbikið endaði á Þjóðvegi 1 við gatnamótin upp í Lögmannshlíð og niður að Brávöllum. Einstaka sinnum náði lögreglan að standa menn að verki og þá var starfsmaður Bifreiðaeftirlits Ríkisins ræstur í sinn slopp og með kaskeiti á haus og gulu vinnuvettlingana heita, tók hann kappakstursbílana í skyndiskoðun og þá var nú ekki litið fram hjá neinum smáatriðum.
Samhliða þessum kappakstri hófst strax á fyrstu árum barátta fyrir landssvæði fyrir klúbbinn og þegar það loks tókst áratugum seinna höfðum við ekið margan hópaksturinn, skrifað fjölda bréfa og haldið óteljandi fundi með ráðamönnum til að koma slíku í kring. Landssvæði til iðkunar bílaíþrótta var talið forsenda þess að klúbburinn dafnaði og yxi. Það er mál Dina að þegar baráttan fyrir landssvæði hófst hafi Bílaklúbburinn gengið síðastur inn í röð verkefna sem Akureyrarbær vildi sinna fyrir áhugamannafélög bæjarins. Þar voru fyrir á undan í röðinni KA, Þór, Skautafélagið og hestamenn.  1976 hópakstur

Strollan lögð af stað í hópakstri vorið 1976

Skrunið á mínútu 5:04 til að sjá myndband frá bryggjunni

Spólbryggjan

Stemming á spólbryggjunni.  Mynd af spjallinu, sjá nánar hér
Annar vettvangur fyrir útrás félaga í Bílaklúbbnum var á Sverrisbryggju niðri á Oddeyrartanga, sem líka var nefnd olíubryggjan, því þar lögðu að skip sem fluttu eldsneyti til bæjarins. Í munni félaga í Bílaklúbbnum hét þessi bryggja alltaf og nefnist enn Spólbryggjan. Þar kom fólk saman í þeim eina tilgangi að láta bíla sína spóla á tréverki bryggjunnar svo oft myndaðist hinn svakalegasti reykur og djúp för þar sem tréð spændist í burtu. Þekkt er sagan af einum forsprakka klúbbsins sem ákvað að hnýta bílinn í bryggjupolla og græja bensíngjöfina þannig að hann gæti stigið út úr bílnum og ljósmyndað hann í miðju spóli. Það vildi ekki betur til en svo að það kom hnykkur á farartækið, rauðan Broncojeppa, spottinn slitnaða og bíllinn stefndi fram af bryggjunni. Ævintýramaðurinn rétt náði að hlaupa bílinn uppi, stökkva inn í hann og stöðva, áður en hann yrði fiskum sjávarins að aðhlátursefni.
Tvennt annað má nefna sem jók ásýnd og umtal um Bílaklúbbinn. Annars vegar var það aðgangur félaganna að fyrirtæki í eigu Halla Hansen, sem gaf út Dagskrána sem síðar varð Ásprent í eigu annars sómafólks. Hjá þessum fyrirtækjum fengum við að búa til fréttablöðunga sem við bárum svo í hús í bænum og höfðum af auglýsingatekjur. Hinsvegar stóð klúbburinn fyrir kvikmyndasýningum að vetrarlagi þegar jarðbönn voru varðandi iðkun bíladellunnar annarsstaðar en innan dyra. Það voru náttúrulega bara bílakappakstursmyndir í boði á slíkum sýningum og voru þær all vel sóttar og aðeins einu sinni kom upp kurr meðal áhorfenda. Það vildi þannig til að röng hlið filmunnar fór í gegnum sýningartækið þannig að tryllitækin sem voru í aðalhlutverki voru allt í einu komin með hægri handar stýri í stað stýrisins vinstra megin. Einstaka áhorfandi heimtaði að fá miðan endurgreiddan út af þessu atviki en Bílaklúbbsmenn gáfu ekkert eftir með það.   Bíósýning

Bíósýning
Félagsstarf
 Hafnarstræti

Dini og Gaggi í Hafnarstrætinu
Klúbburinn var semsagt stofnaður seinni hluta maímánaðar og menn heltu sér í verkin. Fyrsta bílasýningin var haldin nokkrum vikum seinna og gaf hún svo góðar tekjur að ráðist var í að kaupa húsnæði. Keypt var viðgerðaraðstaða fyrir þrjá bíla í húsi við Kaldbaksgötu og átti klúbburinn það hús uns hann flutti starfssemi sína inn í Hafnarstræti. Munurinn á Kaldbaksgötuhúsinu og Hafnarstrætinu var að í því síðarnefnda var fundar- og viðgerðaraðstaða, en einungis viðgerðaraðstaða í því fyrrnefnda. Fram að kaupunum á Hafnarstrætinu voru félagsfundir oftast haldnir í æskulýðsmiðstöðvum bæjarins.
Árið 1980 var nokkuð merkilegt í sögu klúbbsins vegna þess að þá hafði klúbburinn umsjón um að aka Kristjáni Eldjárn og frú hans ásamt stjórnendum Menntaskólans á Akureyri frá Akureyrarflugvelli og upp í Menntaskólann á Akureyri þar sem haldið var upp á 100 ára afmæli skólans. Þessi akstur var að frumkvæði Bílaklúbbsins. Fararskjóti forsetahjónanna var auðvitað Dixie Flyer-inn og á eftir honum kom Citroen bifreið Valdimars Pálssonar, A 7000 þá nýuppgerð, með önnur fyrirmenni. Steindór Geir ók Dixie Flyernum og fór hvorki bröttustu né beinustu leið upp í Menntaskóla, þar sem óvíst var hvort Dixie-inn kæmist svo brattar brekkur. Þess í stað var ekið inn á Ráðhústorg og upp Brekkugötuna að Þórunnarstræti og þaðan upp í Menntaskóla. Dina er minnisstætt þegar forsetinn benti glaður á hús við Brekkugötuna og sagði „Þarna bjó ég þegar ég orti Unndórsrímurnar.“ Sessunautar hans í bílnum vissu ekki hvernig ætti að bregðast við þessum upplýsingum þjóðhöfðingjans alþýðlega, líklega af því þeir höfðu lesið þennan fræga vísnabálk en vildu ekki kannast við það. Víst er að þessi viðhafnarakstur jók mjög virðingu Bílaklúbbs Akureyrar út á við.  Móttaka á flugvellinum

Móttaka á flugvellinum

Um bæinn

Ekið um bæinn
Fyrsta stjórn Bílaklúbbsins var sem hér segir
  • Formaður: Steindór G. Steindórsson
  • Varaformaður: Haraldur Hansen
  • Ritari: Guðný Aðalsteinsdóttir
  • Gjaldkeri: Örn Pálsson
  • Fjármálaritari: Þorsteinn Ingólfsson
Bílasport hefur oft verið talið karlasport og víst er um það að töluvert fleiri karlar stunda það en konur. Hinsvegar hefur raunin alltaf verið sú að konur hafa haft býsna mikil ítök í Bílaklúbbnum, beint sem óbeint. Fyrsta konan í stjórn Bílaklúbbsins var Guðný Aðalsteinsdóttir og síðan hafa fleiri konur fylgt í fótspor hennar og lagt klúbbnum lið við stjórnunarstörf sem og með vinnu við keppnir og sýningar. Loks ber að geta þeirra fjölda kvenna sem þolað hafa maka sínum að gefa Bílaklúbbnum ómældar sjálfboðaliðastundir sem annars hefðu farið í sjónvarpsgláp, konfektát eða tjaldferðalög í mígandi rigningu.
Keppnishald
Fyrsta torfærukeppnin var haldin í malarkrúsum í landi Glerár 24. ágúst 1975. Sigurvegari hennar var Steindór Geir Steindórsson. Um 30 árum síðar varð þetta sama landssvæði að umráðasvæði og framtíðarheimili Bílaklúbbs Akureyrar. Í millitíðinni hafði klúbburinn skoðað hvort svæði eins og Melgerðismelar, malarnámið á Glerárdal, sandarnir við Gásir og melarnir við Þverá kynnu að henta sem landssvæði fyrir akstursíþróttir.  Torfæra 1975

Keppendur í torfærunni 1975.  Sjá nánar til hliðar um keppnina.
 Heiddi

Heiddi heitinn á Kawasaki Z1000  í keppninni 1978.  Sjá nánar til hliðar um keppnina.
Fyrsta sandspyrnukeppni Bílaklúbbs Akureyrar fór fram við Dalvík 27. ágúst 1978. Hátt í 2000 manns mættu á keppnina. Keppnistæki komu að sunnan, meðal annars Benni Eyjólfss á Willys-num sínum fræga og Guli hraðsuðuketillinn sem var 1969 árgerð Ford Mustang með 400 Chevrolet vél. Nafngiftina fékk hann vegna þess hversu oft sauð á honum. Til að laða að keppendur voru peningaverðlaun í boði. Hér höfum við smá frásögn um þetta frá Ragnari S. Ragnarssyni: „Já þetta var alveg magnað. Við vorum alla nóttina fyrir keppnina að undirbúa brautina. Fengum dælu lánaða frá Slökkviliðinu á Dalvík (sem bræddi úr sér) og djöfluðumst með vegþjöppu í startinu, á vöktum alla nóttina fram að keppninni. Engu að síður var brautin helvíti gljúp og býsna erfið yfirferðar. Áhorfendur skiptu þúsundum og skemmtu sér vel enda í fyrsta skipti sem lögleg spyrnukeppni var háð norðan heiða. Nokkrum vikum fyrir keppnina höfðum við sem þá vorum í stjórn B.A. fundið þetta svæði og samið við landeigendur um afnot af því. Við renndum í hlað á bæ landeigandans sem tók okkur vel og hvað sjálfsagt að við fengjum að fara þarna í kappakstur en eitt yrðum við þó að gera; að láta allan rekavið í friði. Það var lán að hlaðið á bænum vísaði inn Svarfaðardal en ekki til sjávar; vegna þess að þá hefði þessi ágæti bóndi séð mikinn reykjarmökk liðast upp af vænum rekaviðarkesti sem við höfðum, af tómri hvatvísi ungra manna, hreinsað úr fyrirhuguðu brautarstæði og kveikt í áður en við báðum um leyfi !“