Mótorhausasögur verða seldar beint úr bílnum (grárri Corolla Station) á planinu við N1 smurstöðina við Tryggvabraut næsta laugardag kl 11-12 og 17-18. Lægsta verð á landinu 5.000 kall (enginn posi). Jólabók allra mótorhausa!
Hér eru tvær sögur úr bókinni:
Hættuleg bifreiðaskoðun.
Maggi Sigurjónss, sá sem hannaði merki Bílaklúbbsins, átti DAF sem var í döpru ástandi; t.d. voru afar lélegar bremsur á honum. Með góðum vilja mátti kannski segja að hann bremsaði hann bara á öðru afturhjólinu. Maggi bjó á Akureyri og fór með DAF-inn í skoðun þar sem aðstaða Bifreiðaeftirlits Ríkisins var þá við Þórunnarstræti. Ingi í eftirlitinu tók Dafinn til kostanna. Íklæddur stöðluðu úníformi bifreiðaskoðunnarmanna þess tíma; ljósbrúnum slopp og viðamiklu kaskeiti. Á þessum árum fór bremsuþáttur skoðunarinnar þannig fram að skoðunarmaðurinn ók inn í Helgamagrastrætið, snéri þar við og kom á ágætis siglingu inn á skoðunarplanið þar sem snögghemlað var. Að sögn Magga kom Ingi reyndar á ískyggilegri siglingu inn á planið og snarhemlaði. DAF-inn sérist snögglega í hring á punktinum, bílstjórahurðinn opnaðist og Ingi var næstum dottinn út úr bílnum. Afleiðingarnar urðu fyrirsjáanlegar: Grænn miði, og heppni að hann varð ekki rauður.
Olíuskipti
Hafið þið heyrt um bifvélavirkjann sem var kominn á áttræðisaldurinn og náði sér í eina 27 ára? Það fæddist barn hjá þeim á hverju ári. Ljósmóðirin var alveg gáttuð á þessu en karlinn sagði að svona væri nú mótorinn í sér góður að þar væri allt í besta standi. Svo kom að því að fjórða barnið fæddist; þá kallaði ljósmóðirin í eiginmanninn stolta. „Ég held að það sé kominn tími til fyrir þig að skifta um olíu á mótornum; þessi krakki er svartur.“