Yfirlýsing og svar formanns BA við yfirlýsingu formanna AKÍS og MSÍ.
Hér að neðan mun ég svara hverjum lið í þeirra yfirlýsingu, lið fyrir lið.
Þar sem yfirlýsing formanna sambandanna AKÍS og MSÍ beinir spjótum sínum að mér Einari Gunnlaugssyni formanni BA þá sé ég mig knúin til þess að búta niður yfirlýsingu þeirra og setja inn mínar skýringar feitletraðar á minni hlið málsins.
Formenn sambandanna saka mig persónulega um að hundsa öryggi keppenda, það er algerlega ólíðandi framkoma af þeirra hálfu og vil ég árétta að í öllu mótorsporti steðjar að einhver hætta, algerlega ómögulegt er að girða svo fyrir með reglum að aldrei geti neitt óvænt gerst sem mér sýnist að formenn sambandanna séu að stíga til þeirrar áttar í götuspyrnu á Akureyri, en loka augunum fyrir þeim greinum þar sem slysin hafa gerst og eru enn að gerast, þegar á það er bent þá er sagt við mann að það sé annarskonar mótorsport og sömu reglur og viðhorf eigi ekki við. Ekki ætla ég að nefna greinarnar á nafn en flestir sem þetta lesa vita á hvað ég er að benda.
Yfirlýsing frá formönnum MSÍ og AKÍS
„Jæja gott fólk. Undanfarnar vikur hefur staðið yfir mikil orrahríð athugasemda og skoðana á Facebook og víðar vegna umsagnar MSÍ og AKÍS vegna akstursbrautar Bílaklúbbs Akureyrar (BA). Við viljum því byrja á að þakka kærlega fyrir „vel valin orð“ í okkar garð og annarra sem vinna í stjórnum MSÍ og AKÍS. Ekki dettur okkur í hug að eltast við þau orð sem menn hafa látið falla um persónur okkar, en þykir leitt hvað menn eru viljugir til að leggjast lágt í umræðunum.“
Mörg orð hafa verið látin falla og ætla ég einungis að bera ábyrgð á eigin orðum sem ég hef látið falla ásamt yfirlýsingum sem ég stend við í aðdraganda þessa máls. Orðum annara sem bera kala gagnvart formönnum sambandanna og ákvarðanatökum þeirra bera þeir sjálfir ábyrg á en ekki ég.
„Við viljum hins vegar gera okkar besta til að varpa ljósi á þessa umræðu og umsögn sambandanna um braut BA á Akureyri. Forsagan er sú að í vor kom upp umræða innan stjórnar MSÍ varðandi ástand brautarinnar og þá sérstaklega dældina sem er í seinni hluta brautarinnar rétt fyrir bremsukaflann, halla brautarinnar upp á við sem og einnig lengd bremsukaflans miðað við mögulegan hraða og heildarlengd brautarinnar. Ólíkt því sem menn hér vilja láta þá snerist sú umræða um öryggi keppenda eingöngu og ekki síður ábyrgð MSÍ og BA ef leyfi væri gefið fyrir akstri í braut þar sem alvarleg slys gætu átt sér stað á miklum hraða. Sama umræða hafði átt sér stað innan AKÍS þó ekki á formlegum stjórnarfundum.“
Þarna rekur minni mitt mun lengra en formanna sambandanna, það er að segja ári áður eða vorið 2016 fékk ég símtal frá formanni MSÍ sem tjáði mér í símtali að hann hefði áhyggur af brautinni vegna ábendinga, sagðist hann í kjölfarið koma til að taka vettvangskönnun á staðnum á næstu keppni BA, það gerði hann og kom og heilsaði, spjallaði þónokkra stund og sagðist svo ætla að einbeita sér að því að horfa á keppnina og hvernig sérstaklega hjólin höndluðu brautina, þegar keppni var að verða búin þá kastaði hann á mig kveðju og þakkaði fyrir daginn. Eftir það, sumarið 2016 þá kom hvorki símtal ná annað frá formanni MSÍ eða stjórn MSÍ þannig að þar með taldi ég að aðstæður væru innan marka sem óskað er eftir miðað við þann hraða sem næst í brautinni.
Formaður AKÍS tók út brautina vorið 2016 með þeim ábendingum sem við létum honum í té að bremsukafli brautanna væri ósléttur en það yrði lagað, með það í farteskinu var BA gefið fullt leyfi vorið 2016 til notkunar á brautinni með þeim hraða sen næðist á henni af þeim ökutæjum sem leyfð eru í reglum um Götuspyrnu. Nú í vor 2017 segist formaður AKÍS hafa sett hraðatakmarkanir á brautina vorið 2016, Það fengum við aldrei að vita en segist hann eiga plagg því til sönnunar og segir starfsmann AKÍS hafa sent ranga umsögn 2016 til BA, það plagg hef ég óskað eftir að fá sent í viðhengi í pósti en formaður AKÍS aldrei fundið tíma til þess hingað til nema plaggið sé bara hreinlega ekki til. Eftir allt það fjaðrafok sem hefur átt sér stað nú í vor vegna þessara hraðatakmarkana þá er mér og öðrum í BA það algerlega ókiljanlegt að hafi formaður AKÍS sett þessar takamarkanir á blað ári fyrr og látið það óáreitt allt síðasta sumar alveg óskiljanlegt, og er það enn minn skilningur og staðföst trú að þarna sagði formaður AKÍS ósatt vegna brautarúttektar 2016.
„Í kjölfarið hafði formaður MSÍ samband við formann BA símleiðis og ræddi áhyggjur MSÍ við hann vegna öryggis keppenda sem margir hverjir eru á upp undir 200 km hraða í lok brautarinnar. Hann bað formann BA að skoða málið og hvort og hvað væri hægt að gera ráðstafanir til að draga úr hættunni sem dældin gæti valdið. Formaður BA eyddi þessum athugasemdum og taldi þetta fullkomlega óþarfar áhyggjur. Hvort hann ræddi þessar ábendingar við aðra innan stjórnar BA er formanni MSÍ ókunnugt um, en ábendingunni var komið á framfæri í byrjun apríl. Engin svör bárust eða tillögur frá BA.“
Sagði formanni MSÍ alla forsöguna og ræddi málið og svaraði ekki frekar formlega þar sem einungis var um símaspjall að ræða en ekki formlegan fund, og taldi að það dygði til upplýsingar þar sem BA var og er með uppáskrifað leyfi frá MSÍ til 01.05.2018. Þannig að ég taldi þetta spjall á þeim nótum sem fram fóru árið áður og formaður MSÍ hafði komið norður á keppni árið áður til að kynna sér aðstæður og ekki haft a,t,h semdir né nokkra útásetningu það árið. Þessi samskipti voru rædd í stjórn BA ásamt deildarformönnum og öðrum lykilmönnum félagsins og ekki talin ástæða til að hafa frekari áhyggjur en fyrra ár.
„Í maí eins og undanfarin ár var kominn tími á úttekt á akstursbrautum BA og KK vegna leyfisveitinga MSÍ og AKÍS í samræmi við reglugerð um akstursíþróttir.“
Leyfi BA frá MSÍ var og er í gildi til 01. Maí 2018. Það leyfi hefur ekki verið afturkallað né minnst á það af hendi MSÍ að það standi til heldur eingöngu mætt á staðinn og brautin tekin út ásamt AKÍS og send sameiginleg brautarúttekt.
En sennilega má gera ráð fyrir því að þar sem MSÍ ákvað að vinna með AKÍS að nýrri brautarúttekt þá sé svo meint að fyrri umsögn sé ógild þó svo þess hafi ekki verið getið.
„Báðir formenn áttu leið norður á Akureyri vegna einkaerinda (og greiddum því ferðakostnað úr eigin vasa svona ef einhvern langar til að væna okkur um bruðl á peningum sambandanna) og ákváðum að nota tækifærið þann 8. maí til að koma við hjá BA og skoða/taka út svæðið. Formaður BA tók vel á móti okkur og leiddi um svæðið og sýndi okkur allt það helsta. Í þeirri skoðun var dældin mjög greinileg frá u.þ.b 120 metrum og að 180 metrum eða stuttu fyrir endamark og bremsukafla. Öllum athugasemdum um dældina var svarað á þá leið að „það hafi aldrei orðið slys í brautinni og því ekki ástæða fyrir okkur til að hafa áhyggjur“. Þessi fullyrðing formanns BA stenst ekki, þar sem óhöpp hafa orðið á brautinni. Með sambærilegum rökum mætti þá kannski færa rök fyrir því að hætta öllum hraðatakmörkunum á þjóðvegum þar sem ekki hafa orðið alvarleg eða nógu alvarlega slys til að réttlæta hraðatakmarkanir.“
Það er vel ef samböndin hafi ekki þurft að leggja út aura fyrir þessari brautarumsögn. Fullyrðing formanns BA stenst að því leiti að dældin eða hæðin hefur aldrei slasað nokkurn keppenda, 3 óhöpp hafa orðið á brautinni undanfarin 5 ár og það fyrsta var þegar keppandi sem fór sína fyrstu ferð í tímatöku og sló ekki af við endamark og reif óþarflega fast í frambremsuna og datt en slasaðist ekkert. Óhapp númer 2 var það að á kvöldæfingu kom keppandi á Suzuki Hayabusa 1300 og þegar hún var komin yfir endalínu þá sá hún fugl fljúga upp af brautinni og bremsaði of skarpt og datt. Það þriðja er að keppandi datt í rásmarki vegna þess að taka of skarpt af stað. Öll þessi óhöpp eru á hjólum og ekki rekjanleg til dældarinnar né hæðarinnar í brautinni.
Samlíkingar formanna sambandanna við þjóðvegina tel ég þeim virkilega til skammar og ættu þeir frekar að vísa í annað mótorsport sem er slysaminna eða hættuminna en Götuspyrna á Akureyri.
„Þegar í vikunni funduðu stjórnarmenn AKÍS og MSÍ sameiginlega og ræddu bæði umsagnir vegna brautar BA og Kvartmíluklúbbsins og komust að sameiginlegri niðurstöðu. Í kjölfarið voru umsagnir gefnar út sameiginlega og sendar á félögin 13. maí.
Í umsögn BA var kveðið á um 160 km hámarkshraða í brautinni þar sem ekki þótti öruggt að veita fullt leyfi fyrir mögulegum hámarkshraða í brautinni við óbreyttar aðstæður. Í umsögn var um leið óskað eftir því að BA kæmi með tímasettar tillögur að því hvernig væri hægt að bregðast við og laga brautina og tryggja öryggi keppenda.
Formaður BA svaraði bréfinu 14. maí og mótmælti harðlega og vísaði til þess að stutt var í mót, sem var vissulega rétt, en gleymir því að þessar ábendingar hefðu fyrst komið fram í byrjun apríl í símtali okkar, óformlega þó. Formaður BA bætir svo snyrtilega við í niðurlagi sendingarinnar „Hvaða haldbær rök eru fyrir þessari ákvörðun, hvorugur aðilinn sem sá um brautarúttekt hefur keppt á þessari braut né annarsstaðar í spyrnu, Já ég segi það „sjálfskipaðir“ af eigin embættum og með öllu óhæfir til að taka út slíkar brautir þar sem reynsla þeirra og áhugi liggur annarsstaðir en í spyrnugreinum.“
Aðrar tillögur um hvernig mætti bregðast við áhyggjum okkar af öryggi keppenda bárust ekki.“
Tillögur bárust ekki frá formanni BA? Það er algerlega rangt þar sem við óskuðum eftir að tekið væri mark á okkar fyrri tillögum um að takmarka hraða við ca 190 km þar sem við hefðum rök fyrir því að einstaka bílar gætu átt í vandræðum eftir þann hraða, vísuðum við í að hjólin hefðu náð 203 km hraða og engin alvarleg vandræði með það svo við værum tilbúnir til að horfa á að banna poweraddera í öflugustu flokkunum til að sporna við að keppendur færu hraðar en komið væri, á það var ekkert hlustað og bara sagt að 160 km hraði væri hámark og stytta þyrfti brautina líka niður í 150 metra.
„Formanni BA voru þökkuð „fagleg“ viðbrögð og hann minntur á samtal við formann MSÍ mánuði fyrr, meðal annars varðandi dældina í brautinni. Einnig var honum bent á að það væri ansi sérstakt að það þyrfti utanaðkomandi menn sem þó væru „algjörlega óhæfir“ eins og hann orðaði það til að benda honum, sem væntanlega hefði sérþekkingu á spyrnugreinum, á að brautin gæti verið hættuleg þegar stór dæld er í henni rétt fyrir endamark. Formaður BA á það hins vegar bara við sig hvernig hann metur öryggismál svæðisins – MSÍ og AKÍS hafa greinilega töluvert hærri staðal í þeim málaflokki.“
Við það stend ég að þetta er mín skoðun hvort menn séu hæfir eða óhæfir, við þá skoðun mína stend ég. Sú fullyrðing formanna sambandanna um staðal á öryggiskröfum sé hærri hjá þeim en mér þá má það vel vera, en mín skoðun og þeirra sem hafa staðið á hlíðarlínunni á brautinni frá opnun hennar teljum þann staðal sem þeir setja sér algerlega galin og engin rök hafa fylgt þeirra úrskurði sem við höfum beðið um að fá en eingöngu fengið þau svör að þetta sé búið að ákveða og því verði ekki breytt. Við höfum óskað eftir svörum hvernig það sé fengið út að 160 sé akkurat sá hraði sem telst öruggur? Eina svarið sem ég fékk ( nefnt á símafundi stjórnar AKÍS ) að til væru keppnir í USA þar sem væri keppt í spyrnu með þessari hraðatakmörkun, við nánari athugun á því þá eru til keppnir þar í 1/8 vegalengd með 100 mílna hámarkshraða en á þeim keppnum eru engar brautarúttektir né aðrar öryggiskröfur gerðar, t,d Hjálmar, veltiboga eða annað slíkt, menn keppa þar sín á milli jafnvel án þess að vera í beltum. Það tel ég ekki góða ábendingu til samlíkingar ef samböndin fara að benda okkur á slíkar keppnir til samanburðar sér til málsbóta.
„Í kjölfarið fylgdu ýmsar sendingar þar sem mestri orku var veitt í það að sýna okkur fram á ekki hafi orðið slys í brautinni og því engin ástæða til að gera neitt í málinu og samböndunum bæri því að endurskoða umsögnina og fella niður hraðatakmarkanir. Þann 27. maí er síðan haldin götuspyrna á braut BA þar sem hraðasellur í endamarki voru fyrir hreina tilviljun „bilaðar“, enda hraðatakmörkun í brautinni þar sem kom fram að keyrslur þar sem hraði væri umfram 160 km gæfu ekki rétt til stiga. Hvort BA valdi að gefa keppendum ekki þessar upplýsingar um hraðatakmörkun eða eins og einhverjir keppendur sögðu “það er hraðatakmörkun í gangi, en hraðasellur í endamarki eru óvirkar” valdi BA að keyra mótið þannig alfarið á sína ábyrgð án hraðatakmarkana og í trássi við umsagnir sambandanna. Úrslit úr þeirri keppni voru svo send á samböndin eftir helgina og þar sem mátti ljóst vera út frá tíma keppenda allt að 30-40 hröðustu tímarnir væru umfram 160 km hraða. Ekki er með óyggjandi hætti hægt að ætla endahraða út frá tíma í braut og því var í kjölfarið ákveðið að einungis væri hægt að veita mætingarstig til keppenda fyrir þátttökuna og þannig sætu allir við sama borð. Þessi aðferð BA til að svara umsögn sambandanna var vægast sagt ámælisverð.“
Eg sendi stjórnum sambandanna þónokkrar keppnir á youtube til þess að horfa á vel og vandlega til þess að sjá með eigin augum hvernig brautin er ekinn aftur og aftur án nokkurra vandræða. Það er túlkað af formönnum sambandanna eins og ofan greinir.
Ekkert í leyfisveitingunni var brotið þar sem orðalagið var þannig að settur væri hámarkshraði á brautina, eina refsingin sem tilgreind var í leyfinu var að ef keppendur væru staðnir að því að fara yfir 160 þá misstu þeir stig til meistara.
Þessu var algerlega framfylgt í fyrstu keppninni og keppendum kynnt það fyrir keppni að ekki mætti fara yfir þennan hraða. Samkvæmt spyrnureglum ber keppnishaldara ekki skylda til þess að mæla hraða í braut og þess var ekki getið í leyfisveitingunni að BA bæri að mæla hraða þá var það ekki gert þar sem sá búnaður okkar var bilaður.
Sú ákvörðun sambandanna að hafa refsinguna á þessa leið tel ég alls ekki standast nokkur lög, samböndin mættu ekki til þess að mæla hraða svo óyggjandi sé hverjir fóru yfir þennan ákveðna hraða en hafa eins og ofan kemur fram refsað öllum keppendum fyrir það þó svo að ekki sé hægt að sanna með óyggjandi hætti hverjir fóru yfir hraðan sem settur var sem hámark. Þessari refsingu hef ég mótmælt harðlega á stjórnarfundi AKÍS og annarsstaðar en hafði ekki erindi sem erfiði frá því.
Það sem ég hef virkilega út á að setja og hef sett þá yfirlýsingu frá mér á samfélagsmiðil að stjórn AKIS sé óstarfhæf til þess að klára þetta mál á farsælan og réttan hátt er t,d vegna þess hvernig á þessu var tekið með refsingar á keppendur sem enga aðild eiga að því hvernig brautin er.
Í refsilögum á Íslandi stendur að enginn er sekur fyrr en sekt er sönnuð. Að dæma fólk á líkum þá þarf hreinlega óyggjandi sannanir til þess að sakfella hinn grunaða sem eru jú keppendur í þessu tilfelli, hér að ofan í yfirlýsingu formanna þá kemur skýrt fram að ekki sé hægt að sanna með óyggjandi hætti! Það eitt er nóg til þess að hinn meinti gerandi skal njóta vafans samkvæmt refsilögum.
Með það yfir höfuð að setja hámarkshraða á brautina og hafa viðurlögin á þessa leið sem komið hefur fram að refsa keppendum en ekki brautareiganda þá tel ég það staðfestingu á skoðun minni sem ég hef sett fram áður að þessir aðilar séu óhæfir til þess að sinna þessu hlutverki, það er að segja því hlutverki að taka út slíkar brautir, gefa út leyfi og ákvarða refsingar séu leyfi brotin.
„Í aðdraganda héldu „fagleg“ samskipti formanns BA við stjórnir sambandanna áfram án þess að nokkur tilraun væri gerð til að koma með tillögur að breytingum á keppnisforminu eða lagfæringum á brautinni. Því var ljóst að BA myndi að öllu óbreyttu hafa sama háttinn á við keppnishald í götuspyrnu á Bíladögum eða keyra keppnina án þess að taka nokkurt tillit til umsagna sambandanna.“
Ekki rétt með farið, BA lagði til ákveðnar takmarkanir sem ekki var hlustað á að taka tillit til.
„Þann 13. júní var því samþykkt sameiginleg yfirlýsing MSÍ og AKÍS vegna þessa máls þar sem bent er á að ef ekki komi skýr svör og tímasettar aðgerðir til að bæta öryggi brautarinnar svo sem með því að stytta brautina í 150m og tryggja að hraðasellur séu til staðar í keppnum verði leyfi fyrir keppnishald í spyrnu afturkallað og tilkynning þess efnis send á Sýslumanninn á Norðurlandi eystra.
Í kjölfarið óskaði BA eftir endurskoðun á umsögninni og að endahraði yrði miðaður við 190 km þar sem brautin hefði verið völtuð og lagfærð. Þessu var hafnað af stjórnum sambandanna þann 15. júní sama og mátu stjórnir AKÍS og MSÍ það sem svo, að tillaga BA nái ekki markmiði um bætt öryggi keppenda.“
Hafnað, Nei Beiðni BA var hundsuð og ekki svarað af samböndunum nema með símtali frá formanni MSÍ þar sem hann meðal annars tjáði mér að ég myndi ekki fífla þá norður til þess að taka brautina út aftur þar sem ekkert væri búið að gera. Þess var skýrt getið að öllum spurningum sambandanna hafði verið svarað á faglegan máta af hendi BA með tímasettri ósk um nýja brautarskoðun og um frest til frekari endurbóta ef þeirra þyrfti til 15. Ágúst 2017.
Þessu var aldrei svarað með tölvupósti heldur einungis ofangreindu símtali frá formanni MSÍ og svo send beiðni á lögreglu daginn eftir með kröfu um að stöðva keppni og afturkalla leyfi.
„Í framhaldinu var BA send breyting á sameiginlegri umsögn AKÍS og MSÍ um keppnisbrautina þar sem kemur fram að spyrna væri ekki heimil á brautinni. Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra ásamt Sýslumanninum á Norðurlandi eystra var sent afrit af breytingunni.
Þann 15. júní 2017 kl. 13:52 barst loksins tillaga frá formanni BA um að lengd brautar í spyrnukeppnum á spyrnusvæði klúbbsins verði stytt í 170 metra. Væri það gert “til að ná fram ásættanlegum hraða spyrnutækja í endamarki”. Tillagan kom fram sem 3hugmynd að málamiðlun frá aðilum sem voru á staðnum og staðfestu að með þessu væru áhrif dældarinnar takmörkuð og öryggi keppenda aukið.“
Þarna var svo komið 2 tímum áður en keppendur færu að mæta að búið var að stilla okkur upp við vegg og aflýsa þyrfti keppninni, þá duttu í hús hjá BA menn að sunnan sem komnir voru til þess að keppa og fór annar aðilinn í það að skoða brautina og þær lagfæringar sem BA var búið að gera og hringdi í formann AKÍS til þess að ná einhverskonar samkomulagi og fullvissa þá um að búið væri að vinna í brautinni, að símtali hans loknu þá tjáði hann mér og okkur að samböndin væru til í að slaka á með kröfurnar og keppnisvegalengd yrði 170 metrar og þá engar hraðatakmarkanir sem ég lagði harða áherslu á að yrði tekin burt, var það samþykkt af þeirra hálfu og þar með sendi BA tölvupóst með þessu samkomulagi á formenn sambandanna.
Þetta samkomulag sættumst við á eingöngu til þess að keppni gæti farið fram þennan dag.
Í þessari keppni þá óku einhverjir keppendur á allt að 190 km hraða og engin óhöpp komu uppá.
„Stjórnir AKÍS og MSÍ töldu að með tillögu að aka aðeins 170m og að hafa hraðasellur í endamarki virkar þá væri komið til móts við markmið það sem upphafleg brautarúttekt sagði, að takmarka hraðann í endamarki. Þá var einnig ákveðið að lengd brauta í götuspyrnu yrði alls staðar 170m í sumar.
Í framhaldinu var formanni BA send endurskoðuð umsögn AKÍS og MSÍ um keppnisbrautina þar sem þetta er staðfest. Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra ásamt Sýslumanninum á Norðurlandi eystra sent afrit af breytingunni. Keppni á Bíladögum fór því fram en með umræddum takmörkunum.
Í kjölfarið er hinsvegar ljóst að BA og formaður BA bera enn litla sem enga virðingu fyrir umsögn sambandanna og gera sitt besta til að kasta rýrð á alla sem að málinu koma og gera lítið úr stjórnarmönnum og formönnum sambandanna og slá sjálfa sig til riddara með eigin greinaskrifum og innleggjum félagsmanna sem hoppa sjálfviljugir á formælingavagninn. Þetta er ámælisvert og hvorki klúbbnum, viðkomandi einstaklingum til sóma né sportinu til framdráttar.“
Menn hafa sennilega unnið til þessara ummæla hver á sinn hátt.
„Því um hvað snýst þetta mál? Er það um keppnishald út á landi eins og sumir vilja meina eða meintan vilja stjórnarmanna til hætta öllu keppnishaldi á landsbyggðinni eða er þetta kannski bara af því að formenn sambandanna koma ekki úr spyrnugreinum. Eða eru þessar ástæður kannski bara runnar frá hagsmunaaðilum sem hafa ekki eða vilja ekki horfast í augu við alvarleika málsins.
Frá sjónarhóli AKÍS og MSÍ snýst þetta mál bara um eitt og það er öryggi keppenda í keppnisbraut sem fær keppnisleyfi frá MSÍ og AKÍS. Það er á ábyrgð AKÍS og MSÍ samkvæmt reglugerð um akstursíþróttir að skoða og taka út þær brautir sem keppt er á hérlendis. Að þessari umsögn og ákvörðun komu, auk formanna, stjórnarmenn í báðum samböndum sem hafa samanlagt áratuga reynslu úr öllum tegundum keppnisgreina sambandsins, spyrnugreina og annarra greina.
Frá sjónarhóli BA virðist þetta mál því miður snúast um allt annað, sem er að viðhalda keppni á braut sem stenst enga alþjóðlega staðla um spyrnubrautir, hvorki með tilliti til ástands brautarinnar (það er dældina sem enn er til staðar), halla á brautinni sem ekki má fara yfir 1% eða lengd bremsukafla miðað við þann endahraða sem keppendur geta náð í viðkomandi greinum. Erindi barst frá BA nýlega, að stjórnir AKÍS og MSÍ hlutist til að fá aðra matsmenn, jafnvel frá alþjóðasamtökunum (FIM/FIA) til að gera úttekt á brautum BA og KK. Vinna er hafin að því að fá matsmenn frá alþjóðasamtökunum hingað í haust til úttektar, svo gera megi viðeigandi ráðstafanir sem fyrst.“
Já akkurat, um hvað snýst þetta?
Mín skoðun og jafnvel margra annara er það að þarna eru úttektarmenn sambandanna ( sem eru í þessu tilfelli formenn sambandanna ) að overdósa af forræðishyggju og ég veit hreint ekki hverju öðru.
Bílaklúbbur Akureyrar tók algera ákvörðun um það þegar hætt var að keppa á götu bæjarins og farið að keppa við margfalt öruggari aðstæður á framtíðar bílastæði félagssins að þar yrði einungis keppt í því sem kallað er götuspyrna og þar af leiðandi kæmi ekki til þess að brautin þyrfti að standast einhverja alheimsstaðla með t,d lengd og fl, hefur sú ákvörðun reynst vel þar sem óskráð tæki eru bönnuð sem ná mun meiri hraða heldur en þau ökutæki sem eru fullskoðuð og á númerum.
Samkvæmt keppnisreglum um spyrnukeppnir þá er alltaf sú klausa til staðar að útiloka skuli keppnistæki teljist það ekki höndla aðstæður nægilega vel, þá reglu hefur BA tamið sér að nota og teljum við það fullkomlega nægjanlegt miðað við þá reynslu sem BA hefur af keppnishaldi í götuspyrnu.
Erindi sem BA sendi samböndunum um að koma og taka brautina út aftur er ranglega farið með af formönnum sambandanna að þar hafi ég eða BA óskað eftir að brautin yrði tekin út að sérfræðingum frá FIA og FIM, það er bara algerlega ósatt, við óskuðum eftir að þeir sjálfir kæmu ásamt mönnum sem rætt var um á ársþingi AKÍS 2017 að annaðhvort hefðu réttindi til brautarúttekta eða langa reynslu af keppnum á spyrnubrautum hérlendis sem erlendis, hér tel ég ekki rétt að nefna nöfn þessara manna en þeir sem þekkja til málsins vita nákvæmlega við hverja var átt.
Rétt er það að samkvæmt lögum þá ber samböndunum að gefa út umsögn fyrir keppnissvæðum, þar með er samt ekkert sem krefst þess að þær brautir sem keppt er á þurfi að standast einhverja staðla frá FÍA né FIM, það er eingöngu þannig að við megum styðjast við brautarreglur og öryggisreglur sem við gerum á flestan hátt en það að keppnisbrautir hér á landi þurfi að standast þá staðla er algerlega rangt með farið, keppnir sem haldnar eru á Íslandi eru ekki hluti af mótaröðum FIA og FIM.
Það að brautir megi ekki halla nema 1% upp eða niður kemur okkur hreint bara ekkert við svo lengi sem við erum ekki að óska eftir að vera partur af mótaröð innan FÍA og FIM, t,d fengist aldrei staðfest heimsmet eða annað á brautum okkar á íslandi þar sem engin þeirra stenst þá staðla sem þeir setja.
„BA virðist því miður hafa meiri áhuga á að gera lítið úr þeim sem að umsögninni komu heldur en að bæta öryggi keppenda með því að fara í lagfæringar á brautinni. Hvort sem um er að kenna tíma- eða peningaleysi félagsins er ekki gott að segja en ef svo væri þá er kannski ein leiðin að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna það einfaldlega og leita leiða til að vinna úr þeirri stöðu.
MSÍ hefur styrkt aðildarfélög sín dyggilega á undanförnum árum til framkvæmda. Bílaklúbbur Akureyrar fékk styrk frá MSÍ árið 2016 fyrir keppnishald á Íslandsmóti, en hefur aldrei sótt um styrk vegna framkvæmda. Slíkri beiðni frá BA væri tekið á sama hátt og öllum öðrum beiðnum og með jákvæðum hug ef til kæmi. AKÍS er að vinna að brautarverkefni með FIA sem miðar að því að auka öryggi fastra akstursíþróttasvæða hérlendis.“
Hvort formenn sambandanna telji að lítið sé verið að gera úr þeim þá er það ekki mín meining þó svo ég skrifi sannleikan á íslensku, ef þeim finnst þetta vega að heiðri þeirra þá bið ég forláts á því en vil koma því skýrt að þó svo þetta sé mín skoðun á þeim gagnvart því að taka út spyrnubrautir þá hef ég líka tekið það fram að hugur þeirra í mótorsporti stendur til annara greina og þar eflaust eru þeir á heimavelli með sína reynslu og þekkingu.
Þar sem formenn sambandanna ýja að tímaleysi og eða auraleysi BA þá á hvorugt við í þessu máli.
Það sem BA telur heillavænlegra er að nota aurana í það að koma upp nýrri braut og geta farið að nota bílastæðið í það sem því er ætlað.
Það sem flestir vita þá er BA að fara í stórframkvæmdir á svæðinu nú í haust og hefja byggingu spyrnubrautar, 1/8 sem mun uppfylla kröfur um lengd og breidd FIA og FIM, einnig verður lagður grunnur að hringakstursbraut í beinu framhaldi og samhliða verða þessar brautir byggðar, áætlað er þær geti verið komnar í fulla notkun árið 2020, hugsanlega fyrr.
Vegna þess að minnst er á styrki í greininni hér að ofan þá man ég og við það vel að MSÍ styrkti BA um góða fjarhæð árið 2015 og voru þeir aurar notaðir til lagfæringar á sandspyrnubraut BA, þar lá hugur okkar að baki að reyna að fá unglinga til að taka frekari þátt í þeirri grein.
Við þökkum MSÍ kærlega fyrir framlagið og boðið um að sækja um styrk til frekari uppbygginga brauta á svæðinu, það munum við eflaust nýta okkur að gera og þökkum það boð.
Slíka umræðu um að AKÍS myndi nota hluta af rekstrarfé sínu til þess að deila á milli þeirra aðildafélaga sem eiga og reka akstursíþróttasvæði og hinna félaganna sem halda að minsta kosti 1 íslandsmót á ári lagði ég fram á ársþingi AKÍS 2017. Tillagan var felld sem mér þótti miður.
„Keppnisbrautir eru teiknaðar upp samkvæmt FIA stöðlum, þar sem metnar eru beygjur, öryggissvæði, vegrið og fleira. Auk þess sem útbúnar verðar öryggisáætlanir fyrir hvert svæði. Stóð til að hafa keppnissvæði BA á Akureyri með frá byrjun en umbeðin gögn hafa ekki borist, en sú beiðni mun ítrekuð á næstunni“.
Gögn sem beðið hefur verið um er AKÍS fullkunnugt að eru bara ekki tilbúin til afhendingar þar sem BA á enn eftir að fá ákveðnar breytingar á svæðinu samþykktar af skipulagsdeild Akureyrarbæjar svo hægt sé að vinna það mál áfram.
„Samskipti vegna úttektar á keppnissvæði BA er félaginu og félagsmönnum þess ekki til sóma. Óskandi er að menn sjái að sér og horfi á aðalatriði málsins, sem er ástand brautarinnar og öryggi keppenda.
Við viljum hvetja alla til að róa sig aðeins og rýna í kjarna málsins og hvað hægt er að gera til að koma sportinu á hærra stig og gleyma um leið fyrri ávirðingum.“
Sama á við um óskir mínar og BA, að samböndin sjái að sér og hlusti á þær takmarkanir sem BA hefur þegar lagt til og teljast algerlega fullnægjandi til þess að aka fulla lengd á brautinni þar sem BA getur lagt fram sannanir þess að þessi braut er sú slysalausasta á landinu hingað til og teljum við að öryggi sé alls ekki stefni í aukna hættu þó að tillaga okkar verði samþykkt af samböndunum.
Hér með lýkur mínum svörum við formenn sambandanna sem áttu sér stað í aðdraganda keppnishalds BA 2017.
Niðurlag mitt vegna greinaskrifa þessa:
Það er mín einlæg ósk að formenn sambandanna og stjórnir þeirra komi að borðinu og taki mark á okkar reynslu og boði um takmarkanir sem við höfum sett okkur á þessari tímabundnu braut sem er framtíðabílastæði félagssins.
Menn sem að koma að málinu þurfa enganveginn að fara að biðjast afsökunar ef á okkar reynslu er hlustað og samböndin tilbúin til þess að mæta stjórn BA og öðrum lykilmönnum félagssins á fundi til þess að greiða úr þessu máli til frambúðar? eða þar til ný braut rís.
Vinnureglur sambandanna þykir mér tími til að endurskoða af aðildarfélögum og tel það góða hugmynd ef formenn allra starfandi aðildarfélaga væru til í að hittast á næstunni ( fyrir svokallaðan formannafund AKÍS ) og ræða málin með það að leiðarljósi hvert og hvaða stefnu samböndin eiga að starfa eftir til þess að sátt og samlyndi muni ríkja um vinnubrögð sambandanna í garð aðildarfélaga.
Til þess fundar er ég tilbúinn að boða til og standa að með stað og stund ef áhugi formanna aðildarfélaganna er fyrir því?
Ef sá áhugi er fyrir hendi þá er gott að fá e-mail frá formönnum aðildarfélaga á einarg@ba.is
Það sem ég vill í stuttu máli leggja til í stórum dráttum er að ég vil sjá samböndunum stjórnað af virkum aðildarfélögum sambandanna með vinnureglur og stjórnarsetu.
Ég vil sjá samböndin vinna í þágu félaganna en ekki öfugt, ( sem mér finnst vera kominn lykt af ) við erum á litla Íslandi og þurfum ekki að taka upp allar alheimskröfur sem starfað er eftir í heimsmeistaramótum, þangað komumst við kannski einhvern tímann og gott og vel ef það gerist, tíminn leiðir það í ljós.
Ég hef löngum sagt að við verðum að gera okkar sport skammlaust á heimavelli áður en við stefnum í landvinninga erlendis.
Torfæruna þekkja allir, það er sport sem þarf og er vert að standa við bakið á erlendis sem komið hefur í ljós.
Allavega Akís ætti að sjá sér hag í því að greiða götur torfærunnar og annars mótorsports jafnt austanhafs sem og vestan en ekki standa sem þrándur í götu þessa sports ef áhugi er fyrir hendi að stefna á landvinninga einhversstaðar í heiminum.
Þó svo Sambandið AKÍS sé aðili að FÍA þá þýðir það ekki að Íslenskir keppendur þurfi leyfi FÍA til þess að fara vestur til USA að keppa í greinum sem tilheyra ekki mótaröð innan FÍA. Það er rangt eins og skilningur AKÍS var 2016 á því að ef menn færu þangað að keppa gætu þeir misst þátttökurétt í Evrópu.
Ein grein mótorsports sem er virkilega vanmetin af okkur sjálfum sem markaðssetning er sandspyrna, áhuga finnum við í BA á sandspyrnu erlendis frá og það með komu fólks og fyrirspurna sérstaklega frá Evrópu til þess að fá fréttir af þessari grein okkar sem um það bil hvergi er stunduð innan Evrópu.
Það er áhugavert en til þess að við getum sinnt fyrirspurnum þá verðum við að efla sportið og þátttöku öflugustu tækjanna verulega, við eigum tækin til en verðum að geta treyst á þátttöku þeirra, ( hvað er hægt að gera til þess ) ? T,d núna er maður ( ljósmyndari frá USA ) sem vill koma og mynda sandinn hjá okkur í haust? Hvernig skal svara?
Þetta er ljósmyndari sem er með leyfi NHRA til ljósmyndunar og umfjöllunar og það er okkur mikilvægt að geta boðið svona mann velkominn til þess að sjá okkar öflugustu tæki taka þátt!
Verða einhverjir draggar með? Torfærubílar t,d?
Við í BA erum algerlega í vandræðum með að svara svona fyrirspurn þar sem við vitum ekkert um þáttöku manna og keppnistækja, sandinn höldum við hvernig sem fer en til þess að fá svona gaura til að fjalla um sportið verðum við að vita eitthvað um áhuga keppenda á slíku.
Drift! Það er eitthvað sem við eldri menn verðum að sættast á að er sportið sem komandi kynslóð er að fíla. Okkur ber því að fylgja því eftir sem reyndar verið er að gera að einhverju leyti en þó í allt of litlum mæli miðað við framboð keppenda og áhugamanna.
Þetta eru ábendingar sem ég vil sjá samböndin vinni beint að til þess að greiða götur þessa akstursíþrótta til þess að sportið okkar komist á hærra plan.
Margt annað gæti ég nefnt sem betur mætti fara til þess að koma sportinu okkar á betra plan með aðkomu sambandanna á samvinnuþýðan hátt en það bíður betri tíma.
Svo mætti lengi telja en látum þetta gott heita að sinni.
Með bestu kveðjum
Einar Gunnlaugsson
Formaður BA Akureyri
PS: ef einhverjir hafa áhuga á að fá nánari útskýringar á fyrrgreindum pistli þá er velkomið að spyrja í einkaskilaboðum og/eða með kommentum.
Komment eru ekki bönnuð heldur vel þegin en munum að gæta velsæmis í orðavali í gagnrýni.
Ég tek allri gagnrýni á sjálfan mig og kann að taka henni, en ekki er víst að allir viðkomandi hafi það.